Eitt er nú græðgin í Jólabókaruglinu. Allir græða 100% ef bók er ,,bara“ seld fyrir 2.000 krónur, en það er auðvitað ekki nóg eins og þeir segja í Kaupþingi. Betra að byrja í 4-5000, og svo lækka ef svínin (les neytendur) byrja að kvarta.

Þegar bókaútgefendum er bent á að það kosti bara 300 kall að prenta bók, byrja þeir að grenja um yfirbyggingu og auglýsingakostnað. En neytendur hafa ekki beðið bókaútgáfur landsins um tveggja mánaða heilaþvott í formi beinna og óbeinna auglýsinga. Eða útgáfuteit sem ganga út á að hella blaðamenn fulla. Eða siðlausa gagnrýnendur sem oflofa allar bækur bara ef þær eru íslenskar.

Þó dómar gagnrýnenda séu oft fyndnasta lesningin fyrir jólin, geta íslenskir rithöfundar líka verið ágætis skemmtan. Annað slagið. Bókaútgefendur, og reyndar íslenska þjóðernisstefnan, hefur alltaf reynt að blása upp hlutverk rithöfunda i sögu þjóðarinnar. Í gamla daga voru þetta oft misheppnaðir bissnissmenn með litla stjórn á ökonómíunni, en svo komu Listamannalaunin, og þá varð þetta svona aukabúgrein fyrir bókaverði og kennara. Í dag er eina gleðin sem hafa má af íslenskum bókum, að finna hvar viðkomandi hefur nú ,,lánað” hugmyndina að síðasta magnum opus. Í ár ættu unnendur Jan Guillou og Roy Jacobsen að geta fundið sitthvað til að stytta sér stundir við lestur bóka eftir svokallaða íslenska höfunda. Svei mér þá, það hefur ekki verið svona gaman síðan Mál&Menning lenti í öllu veseninu með Braggakallinn, sem þuldi heilu skáldverkin ofan í Einar Kárason. Og fékk ekki krónu fyrir.